Baka 15.000 bollur fyrir Sunnlendinga

Þau James Soyiano, Lísa Ásgeirsdóttir og Ronald Cuasay taka brosandi á móti fólki hjá Almari bakara. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að bolludagurinn er í dag. Þó að íslensk börn séu eflaust flest öll hætt að vekja foreldra sína með bolluvendi á þessum degi þá dettur bollan sjálf aldrei úr tísku.

Þegar blaðamaður sunnlenska.is leit við hjá Almari bakara á Selfossi, skömmu eftir hádegi, var röð út að dyrum og þannig er það eiginlega búið að vera í allan morgun.

Í aðdraganda bolludagsins bakar Almar bakari hátt 15.000 bollur og má gera ráð fyrir því að sjö til átta þúsund bollur seljist á bolludaginn sjálfan. Almar bakari bakaríin eru staðsett í Hveragerði, á Selfossi og á Hellu.

„Salan er búin að vera rosalega mikil í dag. Salan er meiri í ár en í fyrra, líka vegna þess að fólk er búið að koma yfir helgina því að það vill ekki allt koma á bolludeginum sjálfum. Þannig að þetta er búið að vera svona jafnt og þétt,“ segir Lísa Ásgeirsdóttir, hjá Almari bakara, í samtali við sunnlenska.is.

Wiktoria Miska í óðaönn að fylla á bollurnar – sem seljast í þúsundavís í dag. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Mikil bollusala um helgina
Lísa segir það hafi verið mikil bollusala um helgina enda kjósa margir að hafa bollukaffi fyrir vini og vandamenn um helgina frekar en á bolludeginum sjálfum.

„Fólk er að kaupa að meðaltali sex til tíu bollur á mann. Fólk er ekkert að spara sig með það. Vinsælasta bollan hjá okkur er annað hvort hverabollan okkar eða orginalbollan okkar. Það er þá rabarbarasultubollan okkar og hindberjasultubollan okkar,“ segir Lísa og bætir því við að þau séu nær eingöngu með vatnsdeigsbollur. „Við vorum einhvern tímann með gerdeigsbollur en það seldist ekki nógu vel þannig að við hættum bara með þær.“

Að sögn Lísu er það allur aldur og öll kyn sem koma og kaupa bollur hjá þeim. „Ef eitthvað er þá eru það karlarnir sem eru að kaupa aðeins meira. Þeir eru náttúrulega að kaupa mjög mikið fyrir vinnustaðinn.“

Eldra fólkið veit hvað það vill
Auk þess að bjóða upp á hverabollur og orginalbollur er einnig hægt að fá lúxubollur, púnsbollur, snickersbollur og nutellabollur hjá Almari bakara.

„Unga fólkið er kannski aðeins að kaupa það sem það hefur ekki smakkað áður en ég held líka að eldra fólk sé búið að smakka hitt áður. Það eru sérstaklega útlendingarnir sem kaupa sér eina bollu af hverju á meðan eldra fólkið veit hvað það vill,“ segir Lísa og bætir því við að útlendingarnir séu alveg með það á hreinu hvaða dagur er í dag hjá Íslendingum. „Þeir googla þetta náttúrulega alveg hjá sér hvaða dagur er.“

Tíu dagar eru síðan Almar bakari hóf að selja bollur og hefur salan aukist jafnt og þétt síðan þá. „Við byrjuðum bara með tvær týpur og svo bættist alltaf við úrvalið eftir því sem nær dró bolludeginum. Og ég held að við verðum með bollur í nokkra daga í viðbót.“

„Ég myndi halda að bolludagurinn hafi bara heppnast mjög vel hjá okkur. Við eigum vonandi nóg af bollum til klukkan fjögur í dag,“ segir Lísa að lokum.

Snickersbollan er vinsæl hjá öllum aldurshópum.
sunnlenska.is/Jóhanna SH
Fyrri greinPerla snýr heim
Næsta greinGilbert með geggjaðar tölur