„Bærinn er að vaxa í sólarátt“

Kristbjörn Guðmundsson og Bárður Árnason frá Eflu, Þórarinn Ingi Úlfarsson frá Gröfutækni, Tómas Ellert Tómasson, formaður eigna- og veitunefndar og Atli Marel Vokes, sviðsstjóri mannvirkja- og umhverfissviðs hjá Árborg. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrsta skóflustungan að nýju íbúðarhverfi í Björkurstykki á Selfossi var tekin í dag.

Það var Tómas Ellert Tómasson, formaður eigna- og veitunefndar Árborgar, sem mundaði stýripinnana á gröfunni undir styrkri stjórn Þórarins Úlfarssonar hjá Gröfutækni á Flúðum sem mun sjá um jarðvinnuna í 1. áfanga Björkurstykkis.

„Þetta er ánægjulegur dagur, hér er að fara af stað gatnagerð í hverfi sem mun telja 650 íbúðir en í þessum fyrsta áfanga verða lóðir fyrir um 200 íbúðir,“ sagði Tómas Ellert í samtali við sunnlenska.is.

Í þessum hluta hverfisins er síðan gert ráð fyrir að rísi nýr grunnskóli, leikskóli og tónlistarskóli.

„Skólinn er ennþá í hönnun en fyrstu íbúðarhúsin munu rísa hér næsta vor. Ég reikna með að lóðir verði auglýstar um næstu helgi og ef eftirspurnin verður mikil þá þurfum við að byrja fljótlega á því að bjóða út næsta áfanga hverfisins,“ bætti Tómas Ellert við. „En þetta er gleðilegur áfangi og við erum að fara í rétta átt, bærinn er að vaxa suður, í sólarátt.“

Gröfutækni átti lægsta tilboðið í gatnagerð og lagnir, rúmlega 671,1 milljón króna. Verkið er áfangaskipt þar sem hluta af götum og botnlöngum skal skilað ómalbikuðu þann 15. mars næstkomandi en heildarverklok eru 1. júlí 2021.

Þórarinn hjá Gröfutækni leiðbeinir bæjarfulltrúanum á gröfunni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Tómas Ellert ánægður að lokinni fyrstu skóflustungunni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinSelurinn í veglegri jeppaferð í boði Suðurlandsdeildar 4×4
Næsta greinLögreglumaður ákærður fyrir að leggja ekki hald á kannabisvökva