Bækur í fimmtán tíma sóttkví

Í bókasafninu á Selfossi. Mynd úr safni. Ljósmynd/Bókasafn Árborgar

Bókasafn Árborgar hefur stytt opnunartímann í 10 til 18 á virkum dögum. Laugardagsopnunin er óbreytt enn um sinn frá 10 til 14.

„Þannig getum við skipt okkur í tvö lið og vonandi þjónað samfélaginu aðeins lengur en ella. Opnunartími almenningssafnanna á Stokkseyri og Eyrarbakka er óbreyttur og við munum láta vita á heimasíðu og Facebooksíðu safnsins um leið og það breytist,“ segir Heiðrún Dóra Eyvindardóttir, forstöðumaður Bókasafns Árborgar.

„Við þrífum bækurnar með sótthreinsandi efnum og setjum þær í „sóttkví“ í að minnsta kosti 15 tíma áður en þær fara út aftur. Eins og allir reynum við að virða tveggja metra mörkin við annað fólk og fara yfir snertifleti á safninu oft á dag,“ segir Dóra ennfremur.

Leikföng, kaffi og tímarit sem liggja frammi hafa verið tekin úr umferð á safninu í bili.

„Við ætlum reyna að koma á heimsendingarþjónustu í næstu viku og munum setja símanúmer á heimasíðu og Facebooksíðu safnsins eftir helgina. Fyrst um sinn verður það bara á Selfossi svo sáum við til hvernig veður, færð og mannafli spila með okkur í því,“ bætir Dóra við.

„En eins og einhver sagði; meðan ekki er hægt að ferðast í raunheimum þá bera bækurnar okkur til fjalægra staða, sólkerfa jafnvel og þangað er gott að leita og hlú að sjálfum sér og sínum, ímyndunaraflinu og sköpunargáfunni meðan ósköpin ganga yfir. Annars erum við bókasafnsdömurnar bara góðar og þokkalega glaðar og hlökkum til að sjá ykkur,“ sagði Heiðrún Dóra að lokum.

Fyrri greinTíu verkefni á Suðurlandi fengu styrk
Næsta greinHarður árekstur á Eyrarbakkavegi