Bæjarstjórn frestar framkvæmdaleyfi vegna endurheimtar votlendis

Fuglafriðlandið er í dag heimili 25 staðbundinna fuglategunda og með framkvæmdinni myndi svæðið stækka umtalsvert. Ljósmynd/Einar Bárðarson

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að fresta afgreiðslu á framkvæmdaleyfi vegna endurheimtar votlendis í Friðlandi í Flóa.

Eins og sunnlenska.is greindi frá fyrr í vikunni hafði skipulags- og byggingarnefnd Árborgar samþykkt umsókn Votlendissjóðs um framkvæmdaleyfi og lagt til við bæjarstjórn að samþykkja umsóknina. Verkefnið er unnið í samvinnu Votlendissjóðs og Fuglaverndar Íslands og er markmiðið að skapa betri búsetuskilyrði fyrir fugla og á sama tíma binda kolefni.

Fá Náttúrufræðistofnun til að vinna vistgerðarkort
Á fundi bæjarstjórnar lögðu fulltrúar minnihlutans fram bókun þar sem þeir lögðu til að framkvæmdaleyfinu yrði frestað og að Náttúrufræðistofnun Íslands verði fengin til að vinna vistgerðarkort fyrir friðlandið og svæðið í kring.

„Þrátt fyrir að undirrituð geri ekki athugasemdir við ávinning þess að loka gömlum skurðum með það í huga að endurheimta votlendi og binda kolefni þá er viðbúið að það geti haft margvísleg áhrif á vistkerfi svæðisins, ásýnd og landnýtingu til framtíðar,“ segir í bókun minnihlutans.

Með því að vinna vistgerðarkort fyrir friðlandið og nálæg svæði segir minnihlutinn að hægt verði að taka upplýstar ákvarðanir um alla landnotkun í framtíðinni og koma í veg fyrir mistök eins og gerðist fyrir nokkrum árum þegar fyllt var uppí hluta af Stakkholtsósnum, þar sem talið var að hann væri gamall skurður. Stakkholtsósinn er hins vegar náttúrulegt afrennsli af svæðinu og getið er um hann í Landnámu.

Meirihlutinn samþykkti tillögu minnihlutans og samþykkti bæjarstjórn hana því með 11 atkvæðum.

Fyrri greinÞG verk átti eina tilboðið í 2. áfanga Stekkjaskóla
Næsta greinSelfoss fékk skell í opnunarleiknum