Bæjarráð býður ungmennum í bíó

Eyrún Björk Jakobsdóttir í hlutverki sínu í Lof mér að falla.

Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum í gær tillögu frá fulltrúum D-lista um að bjóða öllum 9. og 10. bekkingum í grunnskólum Árborgar á kvikmyndina „Lof mér að falla“ í Bíóhúsinu á Selfossi.

Fulltrúar D-listans lögðu fram tillöguna í tilefni af vímuvarnardeginum sem haldinn var síðastliðinn miðvikudag.

„Það er skoðun okkar að gott væri að hluti okkar framlags í vímuvörnum hjá Sveitarfélaginu Árborg væri að bjóða 9. og 10. bekkingum grunnskóla Árborgar á kvikmyndina „Lof mér að falla“ sem sýnd er í Selfossbíói um þessar mundir. Boðið á myndina þyrfti að vinna í góðu samstarfi við foreldra og forráðamenn og skólayfirvöld svo vel takist til. Myndin er byggð á sönnum atburðum um hræðilega ógæfu meðal annars táningsstelpu sem gengur vel í skóla en missir fótanna í baráttunni við fíkniefnavandann. Myndin er gríðarlega áhrifarík og gæti verið innlegg í baráttunni við vímuvarnir,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Bæjarráð fól bæjarstjóra og íþrótta- og menningarfulltrúa að vinna málið áfram en kostnaðurinn vegna þessa fer af liðnum forvarnarmál í fjárhagsáætlun.

Fyrri grein„Við ætlum að gefa allt í þetta dæmi“
Næsta greinTímabilið fer vel af stað hjá Hamri