Bæjarfulltrúar sameinast um gerð fjárhagsáætlunar

Hveragerði. Ljósmynd/Aldís Hafsteinsdóttir.

Bæjarfulltrúar Hveragerðisbæjar hafa ákveðið að taka höndum saman og vinna í sameiningu að fjárhagsáætlunargerð bæjarins fyrir árið 2021 eins og þeir hafa gert undanfarin ár.

Í tilkynningu frá Hveragerðisbæ segir að allir bæjarfulltrúar, hvar í flokki sem þeir standa, séu sammála um að efnahagslegt umhverfi sveitarfélaga nú sé með þeim hætti að brýna nauðsyn beri til að bæjarfulltrúar komi samhentir að þeirri vinnu sem framundan er við gerð fjárhagsáætlunar Hveragerðisbæjar fyrir árið 2021 og að gerð þriggja ára áætlunar, 2022-2024.

Í vinnu við fjárhagsáætlun 2021 munu bæjarfulltrúar leggja áherslu á að standa vörð um grunnþjónustu sveitarfélagsins og eru sammála um að niðurskurður á þjónustu er ekki leiðin út úr þeirri kreppu sem Ísland og heimurinn siglir inn í. Velferð íbúa og samfélagsins mun ávallt verða höfð að leiðarljósi í þeirri vinnu.

„Við Hvergerðingar búum í samfélagi þar sem vel rekin fyrirtæki og stofnanir mynda burðarásinn í atvinnulífi bæjarbúa. Samfélagið er sterkt og sameiningarmáttur Hvergerðinga mikill. Saman munum við takast á við þau verkefni sem heimsfaraldur inflúensu hefur skapað,“ segir ennfremur í tilkynningunni frá bæjarstjórn.

Fyrri grein„Vont að vita af þeim einum uppi í sumarbústað“
Næsta greinGóðar umræður á fyrsta íbúafundi