Bæði tilboðin vel yfir kostnaðaráætlun

Álfheimar á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Vörðufell ehf og Smíðandi ehf áttu einu tilboðin í viðbyggingu leikskólans Álfheima á Selfossi en tilboð í verkið voru opnuð þann 5. september síðastliðinn.

Um er að ræða byggingu þriggja nýrra deilda og stækkun á eldhúsi og starfsmannaaðstöðu.

Bæði tilboðin reyndust vel yfir kostnaðaráætlun. Vörðufell bauð tæpar 511,8 milljónir króna og Smíðandi tæpar 514,2 milljónir króna. Kostnaðaráætlun verksins hljóðar upp á rúmar 375 milljónir króna.

Tilboð Vörðufells er um 36,4% yfir kostnaðaráætlun og eru bjóðendur bundnir að tilboðum sínum í fjórar vikur frá því þau voru opnuð. Framkvæmda- og veitustjórn Árborgar mun taka ákvörðun um afgreiðslu málsins innan gildistíma tilboðanna.

Fyrri greinGylfi Már í heiðurshöll Selfoss
Næsta greinSunnlendingar hrepptu Perlubikarinn