Bað forsetann að stöðva dýraát

Sif Ívarsdóttir með bréfið frá forseta Íslands. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sif Ívarsdóttir, 8 ára stúlka frá Selfossi, fékk fallegt bréf frá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, fyrir skemmstu.

Sif hafði með hjálp móður sinnar skrifað forsetanum bréf þar sem hún bað hann um að stöðva dýraát. Guðni svaraði henni og sagðist ekki getað skipað öllu fólki í heiminum að hætta að borða dýr. Hann sagði aftur á móti að þau skyldu vinna saman að því að hvetja alla til að sýna dýrum virðingu og hugsa eins vel um þau eins hægt væri.

Forsetinn hefur völdin
„Sif sá myndband af dýraníð og tók það mjög nærri sér. Hún spurði mig mörg hundruð spurninga næstu sólarhringa og varð alveg brjáluð yfir því hvernig komið var fram við dýrin. Í sínu daglega lífi tekur hún alltaf dýr fram yfir fólk og þetta hitti hana í hjartastað. Eftir þetta vildi hún ekki borða dýr og bað mig vinsamlegast um að hjálpa sér að semja bréf til forsetans og biðja hann um að stoppa svona virðingaleysi strax,“ segir Sigríður Karlsdóttir, móðir Sifjar, í samtali við sunnlenska.is.

Sigríður segir að í huga barns hafi forsetinn völdin. „Ég settist niður með henni og hún skrifaði honum bréf og spurði hvort hann gæti ekki sagt öllum heiminum í gegnum sjónvarpið að hætta að meiða dýrin. Hann svaraði um hæl á Facebook og bað um heimilisfangið hjá okkur því hann langaði að skrifa henni bréf. Mjög fallegt bréf og það hjálpaði henni mikið að vita að forsetinn beri virðingu fyrir dýrum,“ segir Sigríður.

Elskar dýr meira en allt
Aðspurð hvort Sif hafi alltaf þótt vænt um dýr segir Sigríður svo vera. „Ef ég skamma köttinn okkar þá tekur hún upp hanskann fyrir hann og segir mér að hætta og fer og knúsar hann. Hún elskar dýr meira en allt og þegar hún var fimm ára þá spurði hún hvað ég væri að elda og ég sagðist vera að elda svín. Hún horfði á mig alvarlegum augum og spurði hvort ég myndi vilja sjóða köttinn okkar. Ég sagði nei, það myndi ég aldrei gera, og þá svaraði hún: en þú vogar þér samt að steikja svín!“

Sigríður segir að myndbandið af dýraníð hafi haft mikil áhrif á dóttur hennar: „Eftir þetta myndband þá tók hún ansi stóra ákvörðun og hefur ekki borðað dýr. Allir hinir á heimilinu borða kjöt og fisk svo þetta er mjög stór áskorun fyrir okkur. Hún harðneitar að borða kjöt en borðar ost og eitthvað nammi ennþá en þetta er allt að koma hjá okkur og lærdómurinn er mjög mikill. Það sem hjálpar okkur í þessu ferli er að kokkurinn í Vallaskóla er algjör perla og hefur dásamlegan ávaxta- og grænmetisbar daglega með eðal grænmeti og fyrsta flokks ávöxtum. Hann býður líka oft upp á baunir, eða pasta ef það er kjöt í matinn.“

Skólafélagarnir skilningsríkir
„Mér fannst þetta brjálað vesen í byrjun og ég var ekki tilbúin í þetta, en eins og með allt þá venjast hlutirnir og ég er þakklát fyrir þessa sýn hennar og hve mikið við erum að læra í gegnum þetta ferli,“ segir Sigríður.

„Það sem kom mér mest á óvart eru viðbrögð þeirra sem spyrja. Hún hefur ekki fengið nein neikvæð komment frá jafnöldrum og skólafélagar bera mikla virðingu fyrir allskonar skoðunum og kippa sér lítið upp við þetta hjá henni. Mér finnst líka gott að vita af öllu framboðinu sem er í boði fyrir fók sem borðar ekki kjöt og hve mikið er hægt að setja inn í staðinn. Hún passar sig mjög vel að þröngva ekki skoðunum sínum á hina, við veljum bara öll eftir okkar nefi,“ segir Sigríður að lokum.

Fyrri greinEr Suðurland uppselt?
Næsta greinMagnús með bæði mörk Árborgar