BÁ vill kaupa Björgunarmiðstöðina

Fulltrúaráð Brunavarna Árnessýslu hefur samþykkt að kaupa þann hluta Björgunarmiðstöðvarinnar á Selfossi sem hýsir slökkvistöð liðsins.

Um er að ræða yfirtöku á láni frá Íslandsbanka auk viðbótarláns frá Sveitarfélaginu Árborg en heildarkaupverðið er 288 milljónir króna.

Samþykkt fulltrúaráðsins er gerð með fyrirvara um samþykki aðildarsveitarfélaganna en BÁ stefnir að því að kaupa þær húseignir sem hýsa slökkvistöðvar liðsins. Í framhaldinu er stefnt að því að stofna eignarhaldsfélag sem mun halda utan um húseignir BÁ.

Sveitarfélagið Árborg keypti allt húsið af Íslandsbanka árið 2010 á 192 milljónir króna og hefur varið tugum milljóna króna við frágang á húsinu og lóðinni í kring.

Björgunarmiðstöðin á Selfossi hýsir einnig Björgunarfélag Árborgar, sjúkraflutninga HSu og aðstöðu fyrir Neyðarlínuna.

Fyrri greinMikið af köldu vatni finnst við heitavatnsleit
Næsta greinJólin kvödd á Selfossi