BÁ tekur að sér kennslu í eldvarnareftirliti

Pétur Pétursson slökkviliðsstjóri, Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar og Davíð Snorrason, fagstjóri eldvarna hjá Mannvirkjastofnun, við undirritun samningsins. Ljósmynd/BÁ

Brunavarnir Árnessýslu munu taka að sér kennslumál í eldvarnaeftirliti fyrir Mannvirkjastofnun frá og með þessu ári. Samningur um það var undirritaður á milli jóla og nýárs.

Þeir Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunnar og Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, undirrituðu samninginn sem felur í sér að að Brunavarnir Árnessýslu taki að sér gerð námsefnis og umsjón með námi eldvarnaeftirlitsmanna á Íslandi.

Þetta er liður í þeirri stefnu Mannvirkjastofnunnar að útvista ákveðnum verkefnum sem stofnunin hefur á sínum höndum og mun stofnuninn í framhaldi sinna eftirlitsskyldu sinni í enn ríkari mæli hvað þetta varðar.

Stofnaður verður verkefnahópur undir stjórn Brunavarna Árnessýslu, í kringum vinnuna sem framkvæma þarf við þarfagreiningu, skipulagningu og framkvæmd við uppfærslu námsefnis eldvarnaeftirlitsmanna.

Fyrri greinHamarsmenn efstir eftir fyrri hluta mótsins
Næsta greinSorp frá Suðurlandi flutt til brennslu í Evrópu