Bæta við 24 hótelherbergjum

Unnið er að því að stækka Hótel Laka í Efri-Vík í Skaftárhreppi. Þegar stækkunin verður komin í notkun mun hótelið bjóða upp á 64 hótelherbergi auk 15 smáhýsa.

Að sögn Elsu Bjarkar Harðardóttur, hótelstjóra, er stefnt að því að opna í maí og lítur vel út með bókanir fyrir sumarið. Þegar hótelið er í fullri starfrækslu eru þar um 30 starfsmenn, sumir þeirra reyndar í hlutastarfi.

Nú er unnið að því að byggja 3. áfanga hótelsins. Um er að ræða herbergjaálmu með 24 herbergjum og tengibyggingu yfir í 2. áfanga. Notast er við húseiningar sem staflað er upp.

,,Með því að taka þetta í notkun náum við fullri nýtingu á sal og eldhúsi,“ sagði Elsa í samtali við Sunnlenska.

Gestir hótelsins eru að meirihluta útlendingar en hótelið er opið á veturna og hefur aðsókn verið að aukast þá.

Fyrri greinMarkarfljót komið í „réttan“ farveg
Næsta greinMyndakostur safnsins aðgengilegur á netinu