Bærinn þarf að breyta fjármögnun

Hveragerðisbær hefur neyðst til að breyta fjármögnun sinni vegna kaupa á Hamarshöllinni, loftbornu íþróttahúsi við Grýluvöll.

Á síðasta bæjar­ráðsfundi kynnti Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, breytingar sem gerðar hafa verið á samningnum þar sem norskur viðskiptabanki söluaðilans Scandi Hall hefur neitað að taka við ábyrgðum frá íslenskum bönkum og/eða Lánasjóði íslenskra sveitarfélaga.

Eina leiðin sem Norðmenn samþykkja er að andvirði hússins verði að fullu lagt inn á lokaðan reikning, nokkurs konar greiðslugeymslu (deponera) í hinum norska banka og þaðan verði greitt út í samræmi við framvindu verksins (90% við afhendingu og 10% við lok uppsetningar.)

Ekki var gert ráð fyrir þessari lántöku í fjárfestingaráætlun þessa árs. Bæjarfulltrúi minnihlutans í bæjarráði greiddi atkvæði gegn lántökunni og bókaði að fresta bæri öllum áformum um bygginguna þar til skýrari línur væri komnar í efnahagsmálum þjóðarinnar. Meirihluti sjálfstæðis­manna var þessu andvígur og greiddi atkvæði með lántökunni.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu.

Fyrri greinHörð andstaða við lokun heilsugæslu
Næsta greinFjórir sluppu án meiðsla