Bæjarstjórinn tilkynnti um eldinn

Vegfarandinn sem tilkynnti um eldinn í Eden var Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði. Hún segir eldsvoðann áfall fyrir Hvergerðinga.

Aldís var á rölti í bænum með fleira fólki þegar þau sáu mikinn svartan reyk stíga frá húsinu. „Slökkviliðið var mjög snöggt á vettvang en mínúturnar voru hrikalega lengi að líða þegar við stóðum þarna og biðum eftir þeim,“ sagði Aldís í samtali við sunnlenska.is í nótt.

„Slökkvilið, hjálparsveit og lögregla stóðu sig framúrskarandi vel. Það var stórkostlegt að verða vitni að fumlausum vinnubrögðum og yfrivegun við aðstæður sem voru afar hættulegar og erfiðar. Við erum mjög heppin Sunnlendingar að búa að slíkum mannauði. Við Hvergerðingar þökkum fyrir frábært starf alls þessa fólks,“ sagði Aldís ennfremur og bætti við að nú þurfi Hvergerðingar að horfa fram á veginn.

„Þetta er vissulega mikið áfall fyrir ferðaþjónustuna og Hvergerðinga. En við munum byggja upp og horfa fram á veginn með bjartsýni að leiðarljósi.“

Fyrri greinEden brennur – MYNDIR
Næsta greinÞyrla sótti mann í Hrafntinnusker