Bæjarfulltrúarnir verða áfram níu

Meirihlut bæjarstjórnar Árborgar hefur fallið frá þeirri hugmynd að fækka bæjarfulltrúum úr níu í sjö. Síðari umræða um samþykktir sveitarfélagsins fóru fram á bæjarstjórnarfundi í vikunni.

Í umræðum á bæjarstjórnarfundinum kom fram í máli Eyþórs Arnalds að vinna við samþykktirnar hafi verið unnin af fulltrúum allra flokka sem sæti eiga í bæjarstjórn og er þannig reynt að ná breiðri samstöðu um meginatriði þeirra.

„Til að tryggja góða sátt um grunnreglur sveitarfélagsins og taka tillit til þeirra sjónarmiða sem komið hafa fram um að halda fjölda bæjarfulltrúa óbreyttum er lagt til að fjöldi þeirra verði áfram óbreyttur eða níu alls, hvorki fleiri né færri en nú eru,“ segir í bókun meirihlutans. Jafnframt var sett inn nýtt ákvæði sem tryggir að hér eftir þurfi aukinn meirihluta til að breyta samþykktunum eða 2/3 hluta greiddra atkvæða.

Fulltrúar S-listans í minnihlutanum fögnuðu þeim breytingum sem gerðar hafa verið á bæjarmálasamþykkt sveitarfélagsins. „Sérstakt fagnaðarefni er að nú hefur fyrri ákvörðun verið breytt hvað varðar fjölda bæjarfulltrúa,“ segir í bókun þeirra Eggerts Vals Guðmundssonar og Örnu Írar Gunnarsdóttur.

Fyrri greinTillögur í hönnunarsamkeppni til sýnis
Næsta greinHaldið upp á alþjóðlega prjónadaginn