Bæjarfulltrúar í Árborg afþakka hækkun kjararáðs

Kjaranefnd Árborgar hefur samþykkt að laun kjörinna bæjarfulltrúa, nefndarmanna og framkvæmdastjóra sveitarfélagsins hækki ekki þrátt fyrir hækkun þingfararkaups.

Kjararáð hækkaði þingfararkaup um síðustu helgi úr tæpum 763 þúsund krónum upp í rúmlega 1,1 milljón króna á mánuði. Laun kjörinna fulltrúa í Árborg taka mið af þingfararkaupi.

Kjaranefnd Árborgar samþykkti á tíu mínútna löngum fundi sínum að þóknun kjörinna fulltrúa í Árborg taki áfram mið af 762.940 krónum í sömu hlutföllum og áður, en hækki ekki til samræmis við síðustu ákvörðun kjararáðs.

Þá hefur kjaranefnd Árborgar gert samkomulag við Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra sveitarfélagsins, að laun hennar reiknist áfram út frá 762.940 krónum, en hækki ekki þrátt fyrir hækkun þingfararkaups.

Bæjarráð Árborgar hefur staðfest fundargerð kjaranefndar.

Fyrri greinReynsluboltarnir framlengja við Selfoss
Næsta greinEinu stigi munaði milli Hamars og Dímon/Heklu