Bættur skólabragur með vinnu nemenda

Hveragerðisbær og nemendur 10. bekkjar Grunnskólans í Hveragerði hafa undirritað samkomulag um aðstoð nemendanna við skólastarf í grunnskólanum.

Með samningnum taka nemendurnir að sér að aðstoða í mötuneyti skólans, annast gæslu í frímínútum og í hádegi ásamt skólaliðum og kennurum og aðstoða við gæslu á skólaskemmtunum elsta stigs

Bæjarsjóður greiðir fast verð fyrir vinnu þessa kr. 52.500.- á mánuði og rennur upphæðin óskipt í ferðasjóð 10.bekkinga en fyrirhugað er að nemendurnir fari í námsferð til London í lok skólaársins.

Tilsvarandi samningur hefur verið í gildi milli bæjarins og 10. bekkinga undanfarin ár og hefur vinnuframlag nemenda reynst ómetanlegt í skólastarfinu að sögn Guðjóns Sigurðssonar, skólastjóra Grunnskólans í Hveragerði.

“Með störfum sínum kynnast nemendur innra starfi skólans með nýjum hætti og skólabragurinn verður allur annar og betri þar sem elstu nemendurnir verða með starfi sínu fyrirmyndir þeirra sem yngri eru. Samningurinn er í anda þeirrar áherslu sem skólinn hefur lagt á líðan nemenda en hér hefur verið markvisst verið unnð eftir Olweus eineltisáætluninni til margra ára,” segir Guðjón.