Bæjarstjóri Hveragerðis í kosningaeftirlit

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, mun í næstu viku halda til Sarajevo í BosniuHerzegovinu til að taka þar þátt í kosningaeftirliti á vegum Evrópuráðsins í Strassborg.

Aldís verður þar í vikutíma en kosningarnar verða þar aðra helgi.

„Við erum tíu manna hópur alls staðar að úr Evrópu sem förum til að fylgjast með kosningum til sveitarstjórna sem fram fara um aðra helgi. Þetta er mjög spennandi verkefni en Evrópuráðið fylgist náið með kosningum í ríkjum fyrrum Austur-Evrópu,” sagði Aldís.

Hún er varamaður í Evrópuráðinu fyrir hönd sveitarfélaganna á Íslandi og sótti um að koma að eftirlitinu í Bosniu-Herzegovinu. Aldís sagðist ekki áður hafa komið að verkefni sem þessu en sagði að það væri áhugavert að geta komið að starfi við uppbyggingu lýðræðis í þessum ríkjum.