Bæjarskrifstofan í nýtt húsnæði

Í byrjun september fluttu bæjarskrifstofur Hveragerðisbæjar að Breiðumörk 20, í húsnæði sem áður hýsti Arion banka. Það er fasteignafélagið Reitir sem er eigandi húsnæðisins og sér um allar endurbætur þess en leigusamningur sem í gildi var milli Reita og Hveragerðisbæjar flyst yfir á nýtt húsnæði.

Undanfarið hafa starfsmenn verið að koma sér fyrir á báðum hæðum hússins og iðnaðarmenn hafa verið að ganga frá veggjum, hurðum, skápum og fleiru.

Skjalasafnið er smátt og smátt að flytja í stóran kjallara sem er undir öllu húsinu en þar er stefnt að því að hafa allt skjalasafn bæjarins á einum stað.

„Með flutningnum hefur störfum í miðbæ Hveragerðisbæjar fjölgað til muna og líf færst í gamla miðbæinn. Vonir standa til þess að bæjarbúar munu kunna vel að meta þessa breytingu og andlitslyftingu á gamla miðbænum okkar,“ segir í tilkynningu frá Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra.

Fyrri greinKerlingabækur í Tryggvaskála í kvöld
Næsta greinSelfoss mætir HK í bikarnum