Bæjarfulltrúar mótmæla harðlega

Bæjarfulltrúar í Árborg mótmæla harðlega þeim niðurskurði sem boðaður er í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011 á rekstrarframlögum til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

Í ályktun bæjarfulltrúanna segir að verði frumvarp að fjárlögum samþykkt af Alþingi mun nauðsynleg grunnþjónusta við íbúa á Suðurlandi verða skert verulega, en niðurskurðurinn jafngildir kostnaði við rekstur sjúkrasviðs stofnunarinnar og mun því m.a. fæðingarþjónusta og skurðþjónusta leggjast af.
Sýnt hefur verið fram á að unnt er að reka þessa starfsemi með hagkvæmari hætti á Heilbrigðisstofnun Suðurlands heldur en á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og að gild rök eru fyrir því að flytja frekar tiltekna starfsemi frá Landspítala til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Bæjarfulltrúar í Árborg skora á þingmenn og ríkisstjórn að koma í veg fyrir að þessi skerðing verði að veruleika.

Sveitarfélagið Árborg stendur fyrir opnum íbúafundi vegna málsins laugardaginn 9. október n.k. kl. 14 í Sunnulækjarskóla á Selfossi og eru íbúar sem þingmenn kjördæmisins hvattir til að mæta.