Axel ætlar að opna bíó í Eyjum

Axel Ingi Viðarsson, eigandi Selfossbíós, stefnir að því að opna bíó í Vestmannaeyjum í haust. Bíósalurinn verður staðsettur í sýningarsal Kviku menningarhús.

Eyjafréttir greina frá þessu en bæjaráð Vestmannaeyja samþykkti þetta á fundi sínum síðastliðin þriðjudag og segist fagna aukinni fjölbreytni í menningu og afþreyingu eyjanna.

Í samtali við Eyjafréttir segist Axel spenntur fyrir því að koma með bíó til Eyja.

„Bíóið verður með svipuðu sniði og á Selfossi, en þó bara með einum sal. Líklegast verða sýningar frá fimmtudegi til sunnudags og við ættum að geta verið með sjö til átta sýningar á viku. Það á svo sem ennþá eftir að negla þetta allt niður hjá okkur. Ég vona að Eyjamenn taki bara vel í þetta og verði duglegir að mæta í bíó,” sagði Axel Ingi í samtali við Eyjafréttir.