Austurvegurinn opnaður í dag

Austurvegurinn á Selfossi verður opnaður aftur fyrir umferð í dag, til bráðabirgða, en síðustu fimm vikur hefur verið unnið að endurnýjun lagna undir götunni.

Austurvegur verður opinn til bráðabirgða yfir páskana, sem og Tryggvagata milli Austurvegar og Árvegar. Ökumenn eru beðnir um að fara varlega á vinnusvæðinu en ekki er komið bundið slitlag á veginn.

Að sögn Auðar Guðmundsdóttur, deildarstjóra framkvæmda og þjónustu hjá Árborg, verður veginum svo lokað aftur þegar veður verður hagstætt til bikunar og þá er reiknað með að hann verði lokaður í þrjá daga.

Lagnavinnan var nauðsynleg í tengslum við opnun nýrrar sundlaugarbyggingar í júní. Umtalsverð umsvif hafa tengst uppgreftrinum og skipt var um fjölda lagna, brunna, auk rafmagnsstrengja og fleira. Þá hefur verið gert ráð fyrir að síðar verði hægt að koma fyrir umferðarljósum á gatnamótunum.

Mikið hefur mætt á starfsmönnum Borgarverks á Selfossi sem hafa unnið dag og nótt í þeim tilgangi að auðvelda páskaumferðina.

Fyrri greinRúta með átján manns valt útaf Suðurlandsvegi
Næsta greinEyrbekkingar mótmæla á Selfossi