Austurgarður opnar dyrnar

Það var mikil stemning þegar talið var niður í opnun verslananna í Austurgarði. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Austurgarður, nýr verslunarkjarni við Larsenstræti á Selfossi, var opnaður formlega í hádeginu í dag.

Íbúum á Selfossi gafst kostur á að senda inn tillögur að nafni á húsinu, sem hýsir verslanirnar Gina Tricot, Emil&Línu, Eymundsson og H-verslun. Dómnefnd fór yfir tillögurnar og á endanum kusu íbúar á Selfossi á milli nafnanna Austurgarður og Merkiland og vann Austurgarður kosninguna með miklum yfirburðum.

Anna Árnadóttir tilkynnti úrslitin í nafnasamkeppninni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Þetta er bara geggjað! Bæði náttúrulega vegna þess að ég opnaði Emil&Línu heima í bílskúrnum á Selfossi fyrir 15 árum. Það er líka svo rosalega stórt skref að vera með allt þetta fólk sem sér um allt og gerir allt, það veit hvað ég er að hugsa. Þannig að ég er mjög auðmjúk í dag. Þetta er risastór vitnisburður um þá leið sem við höfum farið á síðastliðnum 15 árum,“ segir Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, sem rekur Gina Tricot og Emil&Línu, í samtali við sunnlenska.is.

Gleður unglingastelpuhjartað
Gina Tricot verslunin í Austurgarði er sú þriðja á Íslandi en óhætt er að segja að vörumerkið hafi slegið algjörlega í gegn hér á landi síðan það opnaði fyrir tveimur árum.

„Það er náttúrulega geggjað að opna Ginu. Ég finn hvernig unglingastelpuhjartað mitt gleðst að fá svona búð á Selfoss. Það er bara algjör draumur. Og bara þetta hús allt, það verður frábært að fá H-verslun líka og Penninn-Eymundsson náttúrulega með æðislega búð,“ segir Lóa en H-verslun mun opna á næstunni.

Sverrir Einarsson í Húsasmiðjunni bauð nýju nágrannana velkomna í hverfið og færði Lóu Dagbjörtu blómvönd. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Frábært bæjarfélag
Sem fyrr segir stendur Austurgarður við Larsenstræti á Selfossi en verslun og þjónusta á Selfossi hefur mikið verið að færast í austurátt. Þar hefur ný Ölfusárbrú mikið að segja en áætlað er að brúin verði tilbúin árið 2028.

„Staðsetningin er mér náttúrulega hjartnæm vegna þess að ég ólst upp í Flóanum, mér finnst eins og ég sé bara að opna upp í sveit, liggur við. Og ég er alltaf jafn andaktug yfir því hvað Selfoss er að stækka mikið og hvað þetta er frábært bæjarfélag og ótrúlega yndislegt að vera hérna.“

„Hvað varðar nafnið þá finnst mér það líka æðislegt vegna þess að maður fer austur og maður býr fyrir austan og allt þetta. Austurgarður. Þetta er svolítið stórt og passar vel og ég held að það eigi eftir að venjast ótrúlega vel. Takk innilega fyrir móttökurnar og ég hlakka til að taka á móti ykkur sem oftast,“ segir Lóa kát að lokum.

Það var handagangur í öskjunni við opnun Gina Tricot enda fengu 100 fyrstu viðskiptavinirnir gjafapoka. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sjö sem eiga nafnið
Sjö einstaklingar áttu hugmyndina að nafninu Austurgarður og fá þeir vegleg gjafabréf frá verslunum í Austurgarði. Þau sem eiga heiðurinn að Austurgarðs-nafninu eru þau Inga Dröfn Jónsdóttir, Guðbjörg Sigríður Kristjánsdóttir, Jón Óli Vignisson, Hrefna Kristinsdóttir, Halla Kjartansdóttir, Anna Dóra Ágústsdóttir og Súsanna Sif Jónsdóttir. Þau eru hvött til að vitja gjafabréfanna í Austurgarði við fyrsta tækifæri.

Opnunarhátíðin stendur yfir til klukkan 18:00 í dag. DJ Dóra Júlía og Skítamórall sjá um tónlistina, auk þess sem Sirkus Íslands og Dansakademían skemmta. Fyrstu viðskiptavinirnir fengu veglega gjafapoka og vegleg opnunartilboð eru í verslununum þremur.

Albert Þór og Ingimar Jónsson, forstjóri Pennans, voru kampakátir við opnunina. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Ný verslun Pennans-Eymundsson er stór og glæsileg. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Albert Þór og Bragi Bjarnason bæjarstjóri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Dansakademían skemmti gestum með glæsilegu dansatriði. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinBrotist inn í Bjarnabúð í nótt
Næsta greinFastakúnnar með fráhvarfseinkenni