Austasti kaflinn tekinn í notkun í haust

Vegaframkvæmdir við Kotströnd. Mynd/Vegagerðin

Framkvæmdir við annan áfanga breikkunar hringvegarins milli Hveragerði og Selfoss ganga vel og eru á áætlun.

Brúarsmíði er í fullum gangi en fimm steyptar brýr og undirgöng ásamt tveimur reiðgöngum úr stáli eru hluti verksins.

Vinnu við lagnir veitufyrirtækja er að ljúka og er næsta skref að byggja upp Ölfusveg svo beina megi umferð um hann á meðan hringvegurinn er byggður upp og breikkaður.

Í frétt frá Vegagerðinni kemur fram að gert er ráð fyrir að austasti nýja vegarins, ásamt hringtorgi við Biskupstungnabraut verði tekinn í notkun í haust en endanleg verklok samkvæmt útboði eru í september 2023.

Óska eftir meiri tillitsemi ökumanna
Í dag starfa 44 við framkvæmdina, bæði starfsmenn ÍAV og undirverktakar sem eru um tólf talsins. Starfsmenn vinna í mikilli nálægð við þunga umferð en samkvæmt umferðartölum frá 2018 var umferðin milli Hveragerðis og Selfoss um 12.700 bílar á sólarhring yfir sumartímann.

„Framkvæmdirnar hafa ekki haft mikil áhrif á umferðina. Tafir eru litlar og umferðin flæðir nokkuð vel. Við erum hins vegar í smá basli með umferðarhraðann, menn sýna okkur litla tillitsemi,“ segir Ágúst Jakob Ólafsson, verkstjóri ÍAV, og bendir á að reynt sé að taka hraðann ekki of mikið niður til að halda umferðarflæði. „Það myndi muna miklu ef fólk færi eftir þessum vægu hraðatakmörkunum svo ekki þurfi að taka hraðann meira niður.“

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá umfjöllun og lýsingu á framkvæmdinni:

Fyrri grein„Þörfin hefur ekki verið ofmetin“
Næsta greinKennimörk kölska, kaþólikka og stríðsmanna á helgum Skálholtsstað