Aukning í vörupökkun á Selfossi

Hætt verður að pakka nýmjólk og léttmjólk í fernur hjá MS Selfossi nú í vor en framleiðsla á Matreiðslurjóma og Fjörmjólk mun flytjast á Selfoss.

Í upphafi árs var framleiðsla og átöppun á Stoðmjólk flutt á Selfoss en Stoðmjólkin, ásamt Matreiðslurjóma og Fjörmjólk eru mun stærri vöruflokkar í framleiðslu en pökkun á mjólk og léttmjólk. Við þessar breytingar verður aukning á pökkun á Selfossi sem nemur 120.000 einingum á mánuði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Guðmundi Geir Gunnarssyni, mjólkurbússtjóra á Selfossi. „Á síðastliðnum fjórum árum eða frá stofnun Mjólkursamsölunnar ehf hefur orðið veruleg aukning í vöruframleiðslu hjá MS Selfossi. Vörunúmerum hefur fjölgað um tæplega 40 á þessu tímabili og heilu framleiðslulínurnar hafa komið á Selfoss,“ segir Guðmundur Geir en vörunúmer í framleiðslu hjá MS Selfossi eru 215 í dag.

Sala á mjólkurvörum til verslana og viðskiptavina á Suðurlandi fer fram í Reykjavík og tiltekt á þeim til dreifingar fer fram á ferskvörulager þar. Eftirleiðis mun Sunnlendingum því bjóðast 1 lítri af mjólk í múrsteinslöguðum fernum og 1½ lítri af mjólk í fernum sem hafa ekki verið á markaði á Suðurlandi til þessa.

Í búinu á Selfossi var tekið á móti 47 milljón lítrum af mjólk á síðasta ári, sem nemur um 40 % af mjólkurframleiðslu landsins. MS Selfossi er stærsta mjólkurbúið á landinu og eru ársverkin rétt ríflega 100.

Fyrri greinVinnuhópurinn tekinn til starfa
Næsta greinÚrslitin í trúbbakeppninni í kvöld