Aukinn órói undir Mýrdalsjökli

Aukinn órói hefur mælst sunnan við og undir Mýrdalsjökli eftir kl. 15 í dag.

Sérfræðingar telja að hugsanlegt sé að vatn valdi óróanum. Ekki lítur út fyrir að gos sé að hefjast. Búið er að gera almannavörnum viðvart og er áætlað að fljúga yfir jökulinn kl. 18 til að kanna aðstæður.

Leiðni hefur aukist í Múlakvísl en vatnsyfirborðið hefur ekki hækkað. Virkni undir Mýrdalsjökli hefur aukist eftir að hlaup varð í Múlakvísl í sumar og hafa um 800 skjálftar mælst á svæðinu það sem af er ári. Til samanburðar mældust 300 skjálftar þar í fyrra.

RÚV greindi frá þessu