Aukin rafleiðni í Múlakvísl

Veðurstofa Íslands fylgist vel með vatnshæð og leiðni í Múlakvísl en rafleiðni í ánni hefur farið jafnt og þétt vaxandi frá því á gamlársdag.

Mælir Veðurstofunnar á Múlakvíslarbrú sýndi aukningu frá ~225 µS/cm til ~350 µS/cm á tímabilinu 31. desember til 7. janúar. Það bendir til þess að hlaupvatn hafi lekið undir einum katlanna á vatnasviði Kötlujökuls.

Svipaðir smálekar hafa áður komið í Múlakvísl, t.d. mældist leiðnin >250 µS/cm í smáhlaupi í október 2013.

Að mati Vatnasviðs Veðurstofunnar er ekki hætta á tjóni enn sem komið er, en vel er fylgst með framvindu mála.