Aukin flokkun úrgangs hefur algjöran forgang

Sorp var urðað í Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi til ársins 2009. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Undirbúningur fyrir útflutning brennanlegs úrgangs frá Suðurlandi er kominn í  fullan gang, í framhaldi af því að SORPA hefur hafnað beiðni Sorpstöðvar Suðurlands um tímabundna móttöku úrgangs til urðunar í Álfsnesi.

Í fréttatilkynningu frá Sorpstöð Suðurlands segir að þessi breytta staða geri það að verkum að nú verði enn mikilvægara en fyrr að úrgangur frá heimilum og fyrirtækjum á svæðinu verði flokkaður eins mikið og hægt er og komið í endurvinnslu.

„Aukin flokkun úrgangs hefur algjöran forgang í starfi sveitarfélaga á Suðurlandi næstu mánuði, enda er vönduð flokkun forsenda þess að hægt sé að lágmarka magn og kostnað vegna úrgangs sem senda þarf utan til brennslu,“ segir í tilkynningunni.

Undirbúningurinn tekur nokkra mánuði
Gámaþjónustan og Íslenska gámafélagið vinna nú bæði hörðum höndum að því að undirbúa útflutning sorps til brennslu í sorporkustöðvum í Evrópu, en þessi tvö félög sjá að mestu um úrgangsþjónustu fyrir sveitarfélög á Suðurlandi.

„Undirbúningurinn felst einkum í tvennu, annars vegar að koma upp pökkunarvélum og öðrum nauðsynlegum búnaði til að gera sorpið útflutningshæft og hins vegar að útvega þau leyfi sem þarf til útflutningsins. Gert er ráð fyrir að þessi verk taki nokkra mánuði og standa vonir til að hægt verði að hefja útflutning sorps frá Suðurlandi í sumarbyrjun,“ segir í fréttatilkynningunni en þar kemur einnig fram að nægur markaður sé fyrir orkuríkan úrgang í sorporkustöðvum í Evrópu.

„Brennsla í slíkum stöðvum hefur það fram yfir urðun að orkan úr úrganginum nýtist og kemur í stað orku úr jarðefnaeldsneyti. Athuganir benda til að kolefnisspor útflutningsins sé hverfandi miðað við þann ávinning sem fæst með orkunýtingunni.“

Endanlegar kostnaðartölur vegna útflutningsins sorps frá Suðurlandi liggja ekki fyrir, en Sorpstöð Suðurlands segir ljóst að þessi tilhögun hafi aukinn kostnað í för með sér. Vönduð flokkun úrgangs sé forsenda þess að hægt verði að halda kostnaðinum í lágmarki.

Fyrri greinÉg hugsa að það sé svolítið fyndið að vera api
Næsta greinHækkuðu fasteignamati mætt með lækkaðri álagningu