Aukið eftirlit með umferðinni um helgina

Lögreglan á Mýrdalssandi. Mynd úr safni. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurlandi

Lögreglan á Suðurlandi hefur kært 1.388 ökumenn fyrir að aka of hratt í umdæminu það sem af er árs. Allt árið í fyrra voru 1.475 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt.

Á sama tíma hafa 76 ökumenn verið kærðir fyrir að aka undir áhrifum áfengis. Allt árið í fyrra voru þeir 123. Þá hafa 107 ökumenn verið kærðir fyrir að aka undir árifum fíkniefna á árinu en voru 115 allt árið í fyrra.

Nú er framundan ein af stærstu ferðahelgum ársins og mun lögreglan bæta í eftirlit líkt og síðustu ár, bæði með umferð og á þeim stöðum þar sem samkomur eru auglýstar eða fólk mun safnast saman. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að markmiðið sé að allir eigi góða daga og komist heilir heim.

Lögreglan mun setja upp umferðarpósta og stoppa alla umferð til að kanna ástand og réttindi ökumanna. Sérstaklega verður fylgst með akstri fá Landeyjahöfn og eru þeir sem ætla að gera sér glaðan dag hvattir til að fara ekki af stað undir áhrifum og ekki fyrr en örugglega er af þeim runnið. Reynslan hefur sýnt að margir misreikna sig þegar þeir fara af stað eftir þjóðhátíð.

Í tilkynningunni bendir lögreglan fólki einnig á að gera nágrönnum viðvart um ferðaplön og biðja þá sem heima eru að hafa auga með heimilum, því alltaf eru einhver brögð að því að óprúttnir aðilar nýti sér fjarveru heimilismanna og kíki óboðnir í heimsókn.

Fyrri greinBergrós að gera frábæra hluti í hitanum í Madison
Næsta greinSelfyssingum leist ekki á blikuna