Aukið lögreglueftirlit yfir sumartímann ekki inni á fjárlögum

Lögreglan í hálendiseftirliti. Mynd úr safni. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurlandi

Bæjarráð Árborgar og bæjarstjórn Ölfuss skora á Alþingi að sjá til þess að lögreglan á Suðurlandi fái áframhaldandi fjárveitingu til að efla eftirlit yfir sumarið, í uppsveitum Árnessýslu, í Öræfum og á hálendinu.

„Brýn nauðsyn er á að halda uppi auknu umferðareftirliti í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Að óbreyttu verða einungis tveir útkallsbílar eða fjórir lögreglumenn á vakt í Árnessýslu, sem er óviðunandi en þar búa um 15.000 manns. Langflest sumarhús landsins eru á því svæði, auk þess sem þar eru fjölsóttir ferðamannastaðir,“ segir í bókun bæjarráðs Árborgar.

Bæjarstjórn Ölfuss segir að þessi staða sé ekki forsvaranleg og mikilvægt sé að þessi fjárveiting komist inn á fjárlög svo hægt sé að skipuleggja eftirlitið til lengri tíma og fastráða í það lögreglumenn.