Aukafé varið í Uxahryggi og Kaldadal

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gær, aukafjárveitingu til vegamála upp á 1.800 milljónir króna. Meðal annars verður farið í framkvæmdir á Uxahryggjum og Kaldadal.

Af heildarfjárhæðinni fara um 1.300 milljónir króna í ferðamannavegi og hálfur milljarður króna í viðhald vega á höfuðborgarsvæðinu og á Hringveginum samkvæmt mati Vegagerðarinnar.

Framkvæmdir við Uxahryggjaveg og Kaldadalsveg eru langt komnar í undirbúningi og því ætti að vera fljótlegt að vera að bjóða þær út.

Uxahryggjavegur liggur milli Borgarfjarðarbrautar og Kaldadals um Lundarreykjadal. Kaldadalsvegur kallast leiðin milli Þingvalla og Húsafells. Unnið verður að endurgerð Uxahryggjavegar eftir því sem fjármagn leyfir og lagt á hann bundið slitlag. Leggja á bundið slitlags á uppbyggðan kafla á Kaldadalsvegi milli Uxahryggja og Sandkluftavatns. Um er að ræða fjölfarinn kafla sem tengir Þingvelli við Vesturland um Uxahryggi.

Fyrri greinÞrír sækja um sóknarprestsembætti og níu um embætti prests
Næsta greinRúmar 360 milljónir í verkefni á Suðurlandi