Auglýst eftir yfirmanni sjúkraflutninga

„Ég geri nú ráð fyrir að sækja um stöðuna aftur, svo er spurning hvort ég fái hana eða ekki, það verður að koma í ljós,“ segir Ármann Höskuldsson, sem hefur verið sagt upp sem yfirmanni sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

„Vegna sameiningarinnar á heilbrigðisstofnunum um áramótin var minni stöðu sagt upp og skipulagi breytt á þann veg að starfi sem ég er í verður skipt upp í tvö störf, annars vegar yfirmaður sjúkraflutninga og hins vegar varðstjóri á þeirri vakt sem ég er á nú, því eru þau bæði auglýst núna laus til umsóknar,“ bætti Ármann við.

Nýr yfirmaður sjúkraflutninga hefur umsjón með framkvæmd og daglegum rekstri sjúkraflutningsþjónustu í heilbrigðisumdæmi Suðurlands, sem spannar tæpa þrjátíu þúsund ferkílómetra.