Auglýst eftir nafni á miðbæjargarðinn

Sveitarfélagið Árborg hefur sett af stað nafnasamkeppni um miðbæjargarðinn á Selfossi.

Um er að ræða garðinn sem samanstendur af gamla Sigtúni og Sigga Óla túni, athafnasvæðum Kaupfélags Árnesinga og Hlutafélagsins hafnar á fyrri tíð.

Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að vilji sé til þess að finna, í samvinnu við íbúa, þjált og gott nafn fyrir þennan framtíðarfólkvang íbúa Sveitarfélagsins Árborgar í miðbæ Selfoss. Vert er að nafn garðsins endurspegli með einhverjum hætti sögu, menningu og hlutverk garðsins. Íþrótta- og menningarnefnd mun fara yfir tillögurnar og nafn garðsins verður tilkynnt í upphafi sléttusöngsins á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi þann 10. ágúst nk.

Allir hafa rétt til þátttöku í nafnasamkeppninni en tilllögur er hægt að senda á netfangið bragi@arborg.is eða koma með þær í þjónustuver ráðhússins að Austurvegi 2, merkt “Nafn á miðbæjargarðinn á Selfossi”.

Skilafrestur er til þriðjudagsins 6. ágúst næstkomandi.

Fyrri greinEinar æfir með Löwen
Næsta greinGuðmunda í úrvalsliðinu