Auglýsingaskilti alla jafna fjarlægð

„Mönnum er óheimilt að setja upp slík skilti og því eru þau fjarlægð,“ segir Björn Ólafsson í þjónustudeild Vegagerðarinnar aðspurður um heimilidir manna og fyrirtækja til að setja upp auglýsingaskilti við þjóðveg og við mörk bæjarfélaga.

Blaðinu barst ábending frá eiganda gistiheimilis í Þorlákshöfn um að Vegagerðin hefði fjarlægt tvö skilti sem hann hafði komið fyrir fyrir utan bæinn, án þess að láta hann vita. Segist hann hafa verið óánægður með að þeir skyldu ekki hafa samband við hann, einkanlega þar sem símanúmer gistiheimilisins var á skiltinu. „Ég man ekki eftir þessu tiltekna tilviki,“ segir Björn.

„Megin reglan er að skilti mega ekki vera 30 til 60 metra frá miðlínu vegar, allt eftir vegtegund,“ segir hann. „Setji menn upp sín skilti þá fjarlægjum við þau,“ bætir hann við.

Aðspurður um skilti sem sett eru innan bæjarmarka og við fjölfarnar götur segir Björn að Vegagerðin setji sig ekki upp á móti þeim skilti ef þau eru sett upp tímabundið.

„Við erum ekki að eltast við slíkt, ef verið er að auglýsa tiltekna atburði til skamms tíma og annað slíkt,“ segir Björn.

Fyrri greinKálfhólar skemmtilegasta gatan
Næsta greinHeldur minni veiði en undanfarin ár