Auga Solanders fylgist með breytingum á Breiðamerkursandi

Vísindamenn IK Foundation hafa komið rannsóknastöðinnni Auga Solanders upp á Breiðamerkursandi. Ljósmynd/Aðsend

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Pär Ahlberger, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, opnuðu í síðustu viku rannsóknarstöðina Auga Solanders (Solander‘s eye) sem staðsett er á Breiðamerkursandi og mun safna fjölbreyttum upplýsingum um þær breytingar sem verða smám saman á landsvæði sem er nýkomið undan jökli.

Rannsóknastöðin er þverfræðilegt verkefni á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði í samvinnu við vísindamenn innan og utan háskólans. Stöðin er sjálfvirk og mun sinna verkefni sínu í 12 mánuði án aðkomu manna. Hún mun safna miklu magni vísindagagna af ólíkum toga frá Breiðamerkursandi, á landsvæði sem hefur nýlega komið undan jökli og er því í mikilli þróun.

Afar áhugavert svæði
Svæðið er víðerni, einangrað frá náttúrunnar hendi og áhrif mannsins þar hverfandi. Staðsetning Auga Solanders býður því upp á framúrskarandi aðstæður til að fylgjast grannt með náttúrlegum ferlum úr fjarlægð án þess að hafa teljandi áhrif á virkni þeirra. Auk fjölbreyttra mælitækja sem skrá og vakta ýmsa náttúrufarsþætti inniheldur stöðin myndavélar og hljóðupptökutæki sem gefa m.a. færi á að fylgjast með framvindu gróðurs og dýralífi á svæðinu.

„Breiðamerkursandur er afar áhugavert svæði út frá náttúrufarslegu sjónarmiði. Þar er stórbrotið, villt landslag sem hefur verið í mikilli þróun frá því að jökullinn tók að hopa fyrir um það bil 130 árum. Svæðið – ekki þá síst Jökulsárlón – er jafnframt einn allra fjölsóttasti ferðamannastaður landsins og því mikil tækifæri þar til öflugrar vísindamiðlunar,“ segir Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Hornafirði.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Pär Ahlberger, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, opna rannsóknastöðina formlega í Hátíðasal Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinMögnuð handverkssýning í Goðalandi
Næsta greinEfnileg hlaupakona raðar inn metum