Auður í krafti FKA kvenna á Selfossi

Einlæg hugvekja Fjólu Kristinsdóttur bæjarstjóra fyrir fullum sal á Hótel Selfossi. Ljósmynd/Aðsend

Það var heldur betur kraftur og gleði í loftinu þegar yfir eitthundrað konur í FKA, Félagi kvenna í atvinnulífinu, sóttu Selfoss heim síðastliðinn fimmtudag. Konur streymdu á Selfoss úr öllum landshornum og sameinuðust um að eiga dásamlega stund í fallega jólaskreyttum Selfossbæ.

„Það var dásamlegt að keyra inn í bæinn og hringja inn jólin á Selfossi í ár,“ segir Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir úr Viðskiptanefnd FKA sem ásamt Hönnu Guðfinnu Benediktsdóttur, Claudiu Ashanie Wilson og Jessicu Kingan héldu utan um viðburðinn sem var sérstaklega vel sóttur.

Glæsilegur bærinn og dásamlegar móttökur á Hótel Selfossi
Öflugar deildir og nefndir starfa í FKA, hátt í fimmtánhundruð konur um landið allt eru í félaginu og fjölmargar á Suðurlandi. Það er Viðskiptanefnd FKA sem skipuleggur jólaröltið ár hvert og er viðburðurinn hugsaður sem tengslamyndun þar sem félagskonur gera sér glaðan dag og gera jólainnkaup.

Konum var skipt í hópa yfir ljúffengu kakói og smákökum frá Rauða húsinu og röltu þær milli ólíkra verslana sem allar eru í eigu eða rekstri FKA kvenna á Selfossi.

„Það voru glæsilegar veitingar í boði og afsláttur í verslunum. Linda Björk í Stúdíó Sport, Dagrún Guðlaugsdóttir í Litlu garðbúðinni, Elín Rós Arnlaugsdóttir í Yrju barnavöruverslun, Linda Guðrún Sigurðardóttir eigandi Gallerí Ozone og mæðgurnar Bryndís Brynjólfsdóttir og Kristín Hafsteinsdóttir í Lindinni tóku á móti konunum og var mikil gleði sem ríkti. Þrjár konur af Suðurlandinu, þær Lauren Walton eigandi Endurlífga Jewellery, María Dís eigandi Hermosa.is og Rebecca Kent höfundur bókarinnar Fúli hvalurinn, kynntu vörur sínar á PopUp markaðstorgi í tilefni dagsins,“ segir Sigríður Þóra.

Öskursyngjandi í góðum fíling
Að loknu röltinu var haldið á Hótel Selfoss þar sem boðið var upp á happdrætti og gjafapoka auk þess sem Fjóla Kristinsdóttir bæjarstjóri flutti einlæga hugvekju. „Fjóla er virk félagskona í FKA og hélt hugljúft erindi sem minnti á mikilvægi þess að iðka þakklæti og hlúa að sjálfinu,“ segir Sigríður Þóra.

Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri FKA, var ánægð með kvöldið og stórglæsilegt framlag viðskiptanefndar FKA. „Happdrættið náði nýjum hæðum með svaðalegum vinningum, konur voru leistar út með gjafapokum og þökk sé Björgvin Jóhannessyni hótelstjóra endaði kvöldið með fullum sal af syngjandi konum. Þeir Einar Örn Jónsson og Benedikt Sigurðsson mættu óvænt og drógu píanó fram á mitt dansgólfið og tóku upphitun fyrir „Sing along“ sem þeir voru með í Risinu síðar sama kvöld. Kvöldið endaði með öskursyngjandi konum í góðum fíling sem brunuðu í höfuðborgina aftur, eða nutu veðurblíðunnar áfram í stórglæsilegum og ljómandi jólabænum Selfossi,“ segir Andrea. „Viðskiptanefnd þökkum við fyrir þrusu sprett!“

Rútuferðir úr Reykjavík – Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir ásamt Hönnu Guðfinnu Benediktsdóttur úr Viðskiptanefnd FKA. Ljósmynd/Aðsend
Viðskiptanefnd FKA 2023-2024 frá vinstri Jessica Kingan, Claudia Ashanie Wilson, Hanna Guðfinna Benediktsdóttir og Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir. Ljósmynd/Aðsend
Steinunn Inga Stefánsdóttir eigandi Starfsleikni, Alexandra Ýr Sigurðardóttir stjórnarkona FKA Vesturlandi og Bjarma Didriksen varakona í stjórn Atvinnurekenda AUÐS. Ljósmynd/Aðsend
Fjöldasöngur Einars Arnar og Benedikts Sigurðssonar sló í gegn. Ljósmynd/Aðsend
Veðrið lék við félagskonur. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinUpplestur og kynning á nýju verki í Kömbunum
Næsta greinSjötti Grænfáninn kominn í hús