Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi voru kallaðir út á þriðja tímanum í dag eftir að eldur kviknaði í timbri á geymslusvæði í Fossnesi á Selfossi.
„Það var vegfarandi sem varð var við reyk eftir að það kviknaði í timbri. Þetta var ekki stórt útkall og verkefnið bæði auðleyst og fljótleyst,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.
Áramótin eru framundan með öllum sínum skoteldum og í snjóleysinu hér sunnanlands er alltaf hætta á gróðureldum vegna flugelda. Pétur segir sína menn vel undirbúna.
„En það lítur út fyrir að það verði blautt á um áramótin þannig að vonandi sleppum við við gróðurelda í þetta skiptið,“ bætti Pétur við.

