„Auðvitað erum við svekkt!“

Hætt verður við byggingu þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs sem kynnt var á Alþingi í vikunni.

Heildarframlög til Vatnajökulsþjóðgarðs lækka í heildina úr 732 milljónum í 352 milljónum með fyrrgreindum afleiðingum.

Samningur um setrið var undirritaður í kjölfar ríkisstjórnarfundar á Selfossi í janúar á þessu ári og var liður í framkvæmdaáætlun síðustu ríkisstjórnar. Ætlunin var að setja alls 870 milljónir króna í þekkingarsetrið sem átti að hýsa m.a. gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs, Erró-setur og skrifstofu Skaftárhrepps.

„Auðvitað erum við svekkt ef þetta verður niðurstaðan,“ sagði Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps aðspurð um viðbrögð við þessum fréttum. „Ég mun kynna mér þessa áætlun og reyna að þrýsta á fjárveitingavaldið að halda sig frekar við fyrri áætlanir,“ sagði hún ennfremur. Eygló segir að vissulega hafi verið í umræðunni um nokkra hríð að fjárfestingaráætlunin yrði tekin til gagngerrar endurskoðunar. „En ég vonaðist til þess að þeir myndu ekki strika alfarið yfir það,“ segir hún.

Fyrri greinGunnar Þór flytur úr hreppnum
Næsta greinLilja í fjórða sæti í Glasgow