Auður ráðin deildarforseti hjá LBhÍ

Selfyssingurinn Auður Magnúsdóttir hefur verið ráðin deildarforseti Auðlinda- og umhverfisdeildar Landbúnaðarháskóla Íslands.

Auður lauk B.Sc. prófi í lífefnafræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og varði doktorsritgerð sína í sama fagi við Stokkhólmsháskóla og Karolinska Institut í Svíþjóð árið 2008.

Hún starfaði áður hjá líftæknifyrirtækinu Orf líftækni frá 2009-2014 og frá 2014 hjá Íslenskri erfðagreiningu. Auður var kjörin formaður Samtaka kvenna í vísindum á fyrsta aðalfundi félagsins í júní sl.

Auður hefur aðallega rannsakað þrívíddarbyggingu próteina með röntgenkristallagreiningu og þróað nýjar aðferðir í próteinframleiðslu og próteinhreinsunum, en hún hefur einnig stundað rannsóknir á sviði mannerfðafræði og lyfjaeðlisfræði.

Á vef landbúnaðarháskólans kemur fram að auður taki við nýju starfi deildarforseta auðlinda- og umhverfisdeildar með gleði og eftirvæntingu í hjarta. Henni þykir að sú fjölbreytta blanda fræðasviða sem til staðar er hjá LbhÍ geti þjónað sem kröftugt samfélagsafl í auðlinda- og umhverfismálum og vill að skólinn gegni leiðandi hlutverki í nýsköpun, umræðum og ákvarðanatökum á þessu sviði.