Auður er komin til Íslands

Úthafsróðrarbáturinn Auður lenti á Höfn í Hornafirði í kvöld eftir að hafa lagt upp frá Eiði í Færeyjum síðastliðinn sunnudag.

Einn af áhafnarmeðlimum Auðar er Selfyssingurinn Einar Örn Sigurdórsson en auk hans voru í áhöfninni þeir Eyþór Eðvarsson, Kjart­an Jakob Hauks­son skip­stjóri, Svan­ur Wilcox, Hálf­dán Freyr Örn­ólfs­son og Ingvar Ágúst Þóris­son. Þeir fjórir síðastnefndu reru síðasta legginn til Íslands en sjóleiðin milli Færeyja og Íslands er ríflega 240 sjómílur.

„Eftir þriggja ára undirbúning og mikla vinnu er þessi brjálaða hugmynd orðin að raunveruleika. Og nú er hún komin í metabækurnar. Á þessari stundu eru hjörtu okkar full af stolti og þakklæti til fjölskyldna okkar og einnig góðvilja styrktaraðila okkar sem gerðu þetta mögulegt,“ segir í tilkynningu á Facebooksíðu North Atlantic Row.

Ferð Auðar hófst í Kristjánss­andi í Nor­egi þann 17. maí 2013 í fyrra. Fyrst reru þeir frá Kristjánss­andi til Orkn­eyja þar sem vont veður gerði þeim erfitt fyr­ir. Biðu þeir í mánuð á Orkn­eyj­um áður en þeir héldu áfram til Fær­eyja. Vegna óhag­stæðra veður­skil­yrða þurfti bát­ur­inn að hafa vetr­ar­dvöl í Fær­eyj­um, en í síðustu viku héldu þeir áfram ferð sinni.

Róður­inn er óstudd­ur og án fylgd­ar­báta. Sögu­leg­um heim­ild­um ber sam­an um að þetta er í fyrsta skipti í Íslands­sög­unni sem báti er róið alla leiðina frá meg­in­landi Evr­ópu til Íslands án þess að not­ast við segl eða mótor. Í fyrra setti áhöfn­in á Auði tvö út­hafsróðramet þegar hún varð fyrst til að róa frá Nor­egi til Orkn­eyja og frá Orkn­eyj­um til Fær­eyja.

Róið var milli landa sam­kvæmt regl­um Oce­an Row­ing Society og Guinn­ess World Records.