Atvinnuleysi eykst á milli ára

Atvinnuleysi mældist 7,7% í nóvember síðastliðnum á landsvísu sem er í neðri mörkum þess sem reiknað var með.

Þannig hafði Vinnumálastofnun talið líklegt að atvinnuleysið yrði á bilinu 7,6%-8,0%. Atvinnuleysi á Suðurlandi var 5,7% sem jafngildir því að meðalfjöldi atvinnulausra hafi verið 791. Þetta er nokkur aukning frá sama tíma í fyrra en þá var atvinnuleysi á Suðurlandi 5,2%.

Langflestir atvinnulausra á Suðurlandi voru á Árborgarsvæðinu eða 401 talsins. Í Hveragerði eru 97 atvinnulausir.

Athygli vekur að samkæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar var aðeins eitt starf laust á Suðurlandi en voru 5 í október og 14 í nóvember í fyrra.