Atvinnuleysi dregst verulega saman á milli ára

Skráð atvinnuleysi á Suðurlandi er nú 2,4 prósent og hefur minnkað talsvert á milli ára, en það var um 3 prósent á sama tíma í fyrra. Nú eru þrjú hundruð einstaklingar skráðir í atvinnuleit á Suðurlandi, 170 konur og 130 karlar.

Þar af eru sjötíu og átta með lögheimili í Sveitarfélaginu Árborg. „Mörg störf hafa verið í boði undanfarið og eru nú skráð sjö laus störf hjá fjórum fyrirtækjum á heimasíðu Vinnumálastofnunar fyrir Suðurland, en aðeins lítill hluti starfa- auglýsinga kemur inn á vef Vinnumálastofnunar,“ segir Svava Júlía Jónsdóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Suðurlandi aðspurð um stöðu atvinnumála í héraðinu. Þannig megi búast við að enn fleiri störf séu í boði innan svæðisins.

Svava segir sumarið leggjast vel í starfsfólk stofnunarinnar og þau vonist til að sjá fleiri skráningar starfa inn á vef Vinnumálastofnunar og að vel hafi gengið að ráða í flest störf.

„Við viljum benda á að Vinnumálastofnun stendur fyrir Fyrirmyndardeginum þann 8. apríl næstkomandi og er það í þriðja sinn. Fyrirmyndardagurinn er mikilvægur liður í því að auka möguleika fatlaðs fólks á fjölbreyttari atvinnuþátttöku. Markmið dagsins er að fyrirtæki og stofnanir bjóði atvinnuleitendum með skerta starfsgetu að vera gestastarfsmenn fyrirtækisins í hálfan dag. Með því fá gestastarfsmenn innsýn í fjölbreytt störf og starfsmenn fyrirtækja kynnast styrkleikum atvinnuleitenda með skerta starfsgetu,“ segir Svava og bendir á að ef forsvarsmenn fyrirtækja vilji taka þátt í Fyrirmyndardeginum sé hægt að hafa samband við hana.

Fyrri greinFimm sækja um Eyrarbakkaprestakall
Næsta greinHanna með 14 mörk í tapleik