Atvinnubrú tengir háskólasamfélagið og atvinnulífið

Helga Kristín Sæbjörnsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Háskólafélag Suðurlands hefur sett af stað átaksverkefnið Atvinnubrú, en verkefnið snýr að því að efla og styrkja háskólasamfélagið á Suðurlandi með því að skapa vettvang fyrir samstarf milli háskólanemenda, atvinnurekenda og samfélagsins á Suðurlandi.

„Við höfum síðustu vikur unnið að því að skapa tengslanet sem kemur til með að nýtast sem gagnagrunnur fyrir þátttakendur í verkefninu. Séu nemendur í leit að rannsóknarverkefni eða starfsnámi getum við hjálpað þeim að tengjast réttum aðilum í sunnlensku atvinnulífi. Sama má segja um fyrirtæki og stofnanir. Ef þau eru í leit að nemendum sem gætu sinnt starfsnámi, sumarnámi eða rannsóknum getum við aðstoðað við að tengja þau við háskólanema sem yfirfærir nýja þekkingu inn í atvinnulífið,“ segir Helga Kristín Sæbjörnsdóttir, verkefnastjóri, í samtali við sunnlenska.is.

„Við höfum átt gott samtal við nokkur fyrirtæki og stofnanir á Suðurlandi og óskum eftir fleiri þátttakendum sem sjá hag sinn í því að taka þátt,“ bætir Helga við en verkefnið er áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurlands 2024. „Við höfum nú opnað fyrir skráningarform og hvetjum alla sem hafa áhuga á því að taka þátt í verkefninu að kíkja inn á heimasíðuna okkar.“

Helga segir að með átaksverkefninu sé lögð rík áhersla á samstarf og valdeflingu en ætlunin er að veita sunnlensku atvinnulífi greiðari aðgang að framtíðar mannauði og skapa vettvang fyrir háskólanemendur til þess að efla starfshæfni sína samhliða eða að loknu háskólanámi.

„Við sjáum mörg tækifæri hér á Suðurlandi og höfum fengið til liðs við okkur háskólasamfélagið sem sér mikla þörf fyrir vettvang af þessu tagi, sérstaklega fyrir háskólanemendur af landsbyggðinni,“ segir Helga enn fremur.

Fyrri greinVédís Huld sigraði Meistaradeild ungmenna
Næsta greinElínborg – meðmæli með biskupsefni