Áttunda byggingin á 16 árum

Nú er unnið að uppsetningu og smíði á 2.200 fermetra gróðurhúsi að Friðheimum í Reykholti í Bláskógarbyggð.

Að sögn eigandans, Knúts Ármanns, er í senn verið að bæta við þá gróðurhúsaaðstöðu sem er fyrir og aðstöðu fyrir ferðaþjónustu.

Að Friðheimum er nú fyrir 3.000 fermetra gróðurhús og einnig aðstaða til að þjónusta ferðamenn, meðal annars með hestasýningum.

Knútur og kona hans Helena Hermundardóttir fluttu í Reykholt fyrir 16 árum og sagði Knútur að þetta væri áttunda húsið sem þau reistu á þeim tíma. Fyrir fjórum árum hófu þau ferðaþjónustu á svæðinu sem hefur aukist ár frá ári. Á síðasta ári komu 5.000 ferðamenn til að skoða hestasýningar og um 60% þeirra skoðuðu einnig gróðurhúsin.

,,Við teljum að það séu góðir möguleikar, bæði í gróðurhúsarækt og ferðaþjónustu og með því að tvinna þessu saman,” sagði Knútur.

Í húsinu verður einkum aðstaða fyrir tómatarækt en þar inni verður 250 fermetra móttökuaðstaða fyrir ferðamenn.

Er gert ráð fyrir að hún verði komin í notkun næsta sumar en ræktunaraðstaðan verður tekin í notkun í tveimur áföngum. Sá fyrri eftir nokkrar vikur.

Fyrri greinMikið um að vera hjá Leikfélagi Selfoss
Næsta greinVill meta gæðin með Skólavog