Átti að vera í sóttkví þegar hann ruddist inn í hús á Selfossi

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Erlendur einstaklingur sem ruddist inn í íbúðarhús á Selfossi undir miðnætti þann 1. september síðastliðinn var sektaður um 50 þúsund krónur en hann átti að vera í sóttkví á þessum tíma.

Maðurinn gat litlar skýringar gefið á athæfi sínu þegar hann var yfirheyrður daginn eftir. Hann var nýlega kominn til landsins og átti að vera í sóttkví á milli skimana.

Fimm lögreglumenn komu að málinu og voru þeir settir í svokallaða úrvinnslusóttkví á meðan sýni úr þeim handtekna var rannsakað. Í ljós kom að sýni mannsins var neikvætt og losnuðu lögreglumennirnir þar með úr sóttkví.

Maðurinn hefur gengist undir sektargerð að upphæð 50 þúsund krónur vegna brots síns og telst málinu þar með lokið, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.