Áttatíu herbergi og 7000 fermetrar

Til stendur að reisa nýtt hótel á Geysi í Haukadal árið 2017 ef áætlanir þar um standast. Þar verða 80 stór herbergi og svítur og ætlað er að heildarstærð bygginarinnar verði um sjö þúsund fermetrar.

Fullvinnsla útlits og innra skipulags hótelsins er í gangi en búið er að grafa grunninn. Allir innviðir, sameiginleg rými, veitingasalir, fundaaðstaða og annað býður upp á möguleika að fjölga herbergjum umtalsvert. Leifur Welding, hönnuður og verkefnisstjóri segir nýja hótelið verða fjögurra stjörnu náttúru- og heilsulindarhótel.

Um 80 prósent allra ferðamanna sem sækja Ísland heim koma fyrst og fremst til þess að upplifa náttúruna að sögn Leifs. „Hótelið og öll upplifun hótelsins verður tengd umhverfi Geysis og því ótrúlega fjölbreytta nærumhverfi svæðisins. Leitast verður við að skapa algerlega nýja hótel upplifun á Íslandi, þar sem ferðamaðurinn verður beintengdur við náttúruna ef að þannig er hægt að orði að komast,“ segir Leifur.

Brynhildur Guðlaugsdóttir er arkitekt verkefnisins. Öll herbergi hótelsins verða óvenjulega stór og glæsileg, það á að fara mjög vel um gesti hótelsins hvort sem þeir gista í eina nótt eða til langs tíma. Svíturnar verða risastórar með öllum þægindum sem hugsast geta auk þess að hafa útsýni sem á sér ekki samanburð.

„Við leitumst við að hanna hótelið með það í fyrirrúmi að það verði einstök upplifun að koma þar og gista. Við viljum að fólk upplifi íslenska náttúru, bæði krafta hennar og ró,“ segir Leifur. Hann segir að einnig verði allur aðbúnaður fyrir fundarhöld og veislur í háum gæðastaðli.

Ekki fæst uppgefið hver áætlaður kostnaður við verkið er, né útlitsteikningar þar sem þær eru ekki fullunnar.

Fyrri greinGóðar gjafir til heilsugæslunnar Laugarási
Næsta greinBankinn lækkar vexti vegna Rangárhallarinnar