Átta hundateymi kemba svæðið

Um 220 björgunarsveitamenn eru við leit að sænska ferðamanninum við Sólheimajökul. Hún hefur enn engan árangur borið.

Fjöldi björgunarmanna er einnig í hvíld eftir að hafa leitað í alla nótt.

Áhersla leitarinnar er á jöklinum sjálfum en aðstæður þar eru erfiðar, hann er háll, sprunginn og töluvert er um hættulega svelgi. Því er aðeins fólk sem vant er aðstæðum á jökli í því verkefni. Annað leitarfólk, þ.m.t. átta hundateymi, kembir svæðið umhverfis jökulinn. Ekki er talið að sá týndi hafi verið með búnað til að fara langt inn á jökul og alþekkt er að týnt fólk finnist langt frá þeim stöðum sem það telur sig vera á.

Þyrla Landhelgisgæslunnar er nú á flugi yfir leitarsvæðið.

Veður er enn þokkalegt og útlit fyrir að verra veður, sem spáð var um hádegisbil, verði seinna á ferðinni.