Atli segir sig úr Vg

Atli Gíslason, 4. þingmaður Suðurkjördæmis, sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna í morgun ásamt Lilju Mósesdóttur.

Atli og Lilja tilkynntu þessa ákvörðun sína á þingflokksfundi Vg í morgun og héldu í kjölfarið blaðamannafund í Alþingishúsinu.

Á fundinum sagði Atli að þessi ákvörðun hafi verið tekin að vel yfirlögðu ráði. Ákvörðunin hafi verið erfið og þau kveðji þingflokkinn með söknuði enda hafi þau átt gott samstarf í ýmsum málum.

Atli mun starfa sem óháður þingmaður og styðja þau mál sem lögð eru fram samkvæmt stefnuskrá Vg. Hann segir þingflokkinn hafa vikið frá stefnuskránni í mörgum málum.

„Það hefur verið ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar sem náði vissum hæðum við afgreiðslu fjárlaga,“ segir Atli sem sat hjá við afgreiðslu fjárlaga 2011.

„Í kjölfarið var farið fram á að við lýstum yfir stuðningi við ríkisstjórnina en við gátum ekki gefið slíka yfirlýsingu þá. Málefnaágreiningurinn hefur ekki verið til lykta leiddur og því tökum við þessa ákvörðun núna,“ sagði Atli. „Við getum ekki stutt stefnu og vinnubrögð núverandi ríkisstjórnar.“

Atli sagði það hafa komið mjög til skoðunar að segja af sér þingmennsku og hleypa varamanni Vg að. Hann taldi sig þó áfram hafa eitthvað fram að færa í þinginu.

Fyrri greinSvartsvanur í Mýrdalnum
Næsta greinLið Selfoss dró sig úr keppni