Átjánda flugeldasýningin á Jökulsárlóni

Laugardagskvöldið 11. ágúst kl. 23 hefst árleg flugeldasýning á Jökulsárlóni. Sýningin er löngu orðin að árvissum viðburði og þetta er í átjánda sinn sem hún er haldin.

Undirbúningur fyrir sýninguna hefst fyrr um daginn þegar menn á gúmmíbáti fara um lónið og raða 150 friðarkertum á ísjaka. Áður en sýningin hefst er kveikt á kertunum og flugeldum er skotið upp á nokkrum stöðum á lóninu. Sýningin varir í u.þ.b. 20 mínútur. Upplýstir ísjakarnir eru baðaðir í litum og birtu frá stórkostlegri flugeldasýningu í magnaðri umgjörð náttúrunnar sem skapar einstaka upplifun fyrir áhorfendur. Gestum sýningarinnar hefur fjölgað jafnt og þétt.

Björgunarfélag Hornafjarðar hefur veg og vanda af sýningunni í samstarfi við Ríki Vatnajökuls. Í ár er Ice Lagoon aðal styrktaraðili sýningarinnar.

Aðgangseyrir sýningarinnar er 1.500 kr. á mann og hægt er að greiða við innganginn. Aðgangseyrir rennur óskiptur til Björgunarfélagsins sem kemur sér vel við þau fjölmörgu verkefni sem félagið tekur að sér. Frítt er inn fyrir börn 12 ára og yngri.

Það er tilvalið að gera sér ferð á þessa einstöku flugeldasýningu og styrkja um leið gott málefni. Sætaferðir verða bæði frá Höfn og Kirkjubæjarklaustri.

Upplýsingar um sætaferðir og hvar hægt er að kaupa miða í forsölu á sýninguna er hægt að nálgast hér.

Fyrri greinÆvintýri á gönguför með Leikfélagi Selfoss
Næsta greinÞjófar aka um Landbrot og banka upp á