Átján útskrifast úr fangavarðanámi

Frá útskriftarathöfninni á föstudaginn.

Síðastliðinn föstudag útskrifuðust átján nemendur úr fangavarðanámi Fangelsismálastofnunar sem starfrækt er hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu hjá embætti ríkislögreglustjóra.

Námið er eitt ár og samanstendur af tveimur önnum og starfsnámi sem tekið er yfir sumarmánuðina. Námið er þróunarverkefni sem dómsmálaráðuneytið fól Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu fyrst að sinna árið 2024 og var því framhaldið í ár og er þetta því annar árgangurinn sem útskrifast. Þróunarverkefnið felur í sér að starfrækja og þróa fangavarðanám í samvinnu við Fangelsismálastofnun og byggja upp gott samstarf á milli stofnanna. Allir nemendur sem útskrifuðust voru starfandi fangaverðir og á þessum tveimur árum hafa 38 fangaverðir verið útskrifaðir.

Almenn ánægja hefur verið með samstarfið og nú í lok árs 2025 tók dómsmálaráðuneytið ákvörðun um að halda núverandi fyrirkomulagi áfram. Í útskriftinni var það tilkynnt að Fangelsismálastofnun og Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu hafa undirritað fimm ára samstarfssamning um fangavarðanámið í núverandi mynd, hvort sem það er grunnnám eða í sí- og endurmenntun.

Árið 2026 verður lögð áhersla á sí- og endurmenntun auk þess sem fangavarðanámið verður endurskoðað, eins og það hefur verið kennt síðastliðin tvö ár, til að gera gott enn betra. Markmið námsins eru að gefa fangavörðum góða innsýn í regluverkið sem Fangelsismálastofnun starfar eftir, þekkingu á mannlegum þáttum sem og samskiptafærni og verkfæri í kistuna til að takast á við það óvænta sem getur komið upp í starfinu.

Fyrri greinEva María og Eric Máni íþróttafólk Umf. Selfoss
Næsta greinGlæsileg jólasýning fimleikadeildar Selfoss