Átján teknir fyrir hraðakstur í hálkunni

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þrátt fyrir hálku þessa dagana finnur lögreglan enn ökumenn sem aka of hratt. Í síðustu viku lentu átján ökumenn í ratsjá lögreglunnar.

Helmingur þeirra var á þjóðvegi 1 í Vestur-Skaftafellssýslu, einn í Sveitarfélaginu Hornafirði, þrír í Rangárvallasýslu og fimm í Árnessýslu.

Að undanförnu hefur hitastigið verið um frostmarkið og skipst á snjóél, slydda eða rigning. Við þessar aðstæður verður fljótt gríðarleg hálka á vegum og gangstígum. Ellefu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í liðinni viku en í dagbók lögreglunnar kemur fram að flestir hafi sloppið úr þeim án teljandi meiðsla.

Eins og sunnlenska.is hefur greint frá þurfti að virkja hópslysaáætlun þegar fjórir bílar lentu í umferðaróhappi á Mýrdalssandi við Dýralæki á laugardag. Um erlenda ferðamenn var að ræða í öllum bifreiðunum og reyndust allir lítið eða ekkert slasaðir.

Fyrri greinÍshellan í Grímsvötnum sígur hægt
Næsta greinBrennuvargur náðist á eftirlitsmyndavél